Guðmundur Oddur Magnússon, heiðursfélagi FÍT er látinn

Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, var fæddur 5. júní 1955 á Akureyri.
Goddur var heiðursfélagi Félags íslenskra teiknara (FÍT) og efldi starfið sem óþrjótandi þekkingarbrunnur þegar kom að grafískri hönnun og íslenskum sjónarfi. Með því að efla tilverurétt og samheldni innan hóps grafískra hönnuða og myndhöfunda var Goddur ómetanleg fyrirmynd. FÍT vottar fjölskyldu og vinum hans öllum innilega samúð.
Goddur stundaði nám við grafíkdeild og nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans 1976–79. Á árunum 1986–89 nam hann grafíska hönnun í Emily Carr College of Art and Design í Vancouver í Kanada.
Á árunum 1980–1982 rak Goddur galleríið Rauða húsið á Akureyri. Hann starfaði á auglýsingastofunum Tímabæ og Midasi í Reykjavík til 1986. Að loknu námi sínu í Kanada starfaði hann um stutta hríð sem grafískur hönnuður hjá ION design í Vancouver. Goddur flutti aftur til Akureyrar og kom að stofnun Listamiðstöðvar í Grófargili árið 1991 og kom á fót námi í grafískri hönnun við Myndlistarskólann á Akureyri 1993. Síðar varð hann deildarstjóri í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 til loka skólans 1999. Sama ár þegar kennsla hófst við Listaháskóla Íslands (LHÍ) varð Goddur fagstjóri í grafískri hönnun við hönnunardeild sem hann stofnsetti ásamt fleirum og seinna prófessor í grafískri hönnun 2002.
Síðustu ár ævi sinnar starfaði hann sem rannsóknarprófessor við LHÍ þar til hann fór á eftirlaun. Þrátt fyrir að vera formlega sestur í helgan stein stundaði Goddur rannsóknir af eljusemi og hélt fyrirlestra. Árið 2025 var hann sæmdur nafnbótinni heiðursprófessor við hönnunardeild LHÍ fyrir einstakt framlag til lista, fræða og þróunar kennslu og rannsókna.
Guðmundur Oddur var þekktur og elskaður fyrir störf sín á sviði grafískrar hönnunar, myndlistar og síðast en ekki síst kennslu. Hann gegndi einnig hlutverki listgagnrýnanda og fræðimanns í sjónvarpi, útvarpi og prentmiðlum. Þekkingu sinni miðlaði Goddur með kennslu, fræðigreinum, fyrirlestrum og í viðtölum. Hann starfaði jafnframt sjálfstætt meðfram kennslunni, skipulagði fjölda listasýninga, var duglegur veggspjaldahönnuður og grafíklistamaður, og verk hans birtust víða í bókum, tímaritum, á veggjum og inn á heimilum landsmanna. Godds er sérstaklega minnst fyrir gagnrýna hugsun, hispurslausar umræður og að eiga stóran þátt í að fræða almenning um grafíska hönnun og sjónarf á Íslandi.
Guðmundur Oddur Magnússon var sjötugur að aldri og lést 3. janúar s.l.