Spenntari að leyfa Íslendingum að sjá sýninguna

Arnar Skarphéðinsson arkitekt tók grunnám í arkitektúr í LHÍ og bætti svo við sig meistaragráðu í arkitektúr í Southern California Institute of Architecture í Los Angeles. Hann starfar nú sem arkitekt hjá s.ap arkitektum ásamt Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt og móður hans og Björgu Skarphéðinsdóttur, systur hans. „Við fjölskyldan tölum 95% um arkitektúr,“ segir Arnar hlæjandi en þau vinna nú að uppsetningu sýningarinnar Lavaforming í Listasafni Reykjavíkur. Arnar Skarphéðinsson arkitekt er hönnuður í fókus að þessu sinni.
Fyrirmyndin er Lebbeus Woods
„Ég var svona 8 eða 9 ára þegar ég hugsaði í fyrsta skipti um arkitektúr. Þá bjuggum við í Barcelona meðan mamma var að taka master í skólanum sínum þar. Hún var alltaf að koma með verkefnin heim og sýna mér það sem hún var að læra,“ segir Arnar. Það sat sérstaklega í honum þegar mamma hans kynnti hann fyrir bandaríska arkitektinum Lebbeus Woods sem er þekktur fyrir mikinn frumleika, ferskar hugmyndir og arkitektúr í nýju samhengi. „Lebbeus var mjög spekúlatívur arkitekt sem bjó aldrei til alvöru hús heldur gerði stórar hugmyndir, teikningar, sögur og bjó til heima - skrifaði líka handrit að kvikmynd.“ Að sjá þær teikningar kveikti á einhverju í hausnum á Arnari, hann sá fyrir sér tölvuleiki og nýja heima. „Hann er ennþá uppáhalds arkitektinn minn.“

Tölvuleikir og nýir heimar
Arnar var algjört Lego barn með brennandi áhuga á StarWars og tölvuleikjum en auðvelt er að átta sig á því hvernig sá áhugi þróast inn í arkitektúr og það að búa til nýja staði. „Mín kynslóð ólst upp við tölvuleiki og ég byrjaði að spila á þeim aldri þar sem heilinn er að þroskast og líklega hef ég ekki alltaf tengt við að þessir heimar sem birtust væru ekki til í alvörunni. Fyrir mér er svo augljóst að sýna arkitektúr í gegnum hreyfimyndir og tölvuleiki og láta þetta morphast saman.“
Arnar segir skólarnir tveir, LHÍ og í LA séu mjög ólíkir, hvor með sína áherslu. „Það sem ég kunni mest að meta við arkitektanámið í LHÍ er frelsið. Ég fékk rými og svigrúm til að vinna með mín áhugamál og þróast þannig. Námið úti gekk meira út á það að kennarar sögðu okkur nemendum nákvæmlega hvað við ættum að gera. Úti kynntist ég mörgu skemmtilegu fólki með mjög mikinn metnað og á milli okkar var vinaleg samkeppni!“ Arnar hefur sannarlega þróað áhuga sinn og þekkingu á hreyfimyndum og tækni og notar nú þann miðilinn og stafræn tól mikið í sínum arkitektúr.

Krísa í byggingariðnaði
En hvernig nálgast Arnar fagið? „Arkitektar þurfa að kunna smá í öllu og skilja aðkomu og eðli annarra greina. Við hönnum byggingar en margir aðrir koma að ferlinu áður en bygging er tilbúin; verkfræðingar, iðnaðarmenn og svo framvegis,“ segir hann. Talið þróast áfram að hinu byggða umhverfi í dag sem stöðug umræða er um. „Það er ljóst að það er krísa í byggingariðnaði en fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvar sú krísa liggur og hvers vegna. Í dag er áhersla á að byggja mikið og hratt en á sama tíma er verið að skapa fjárfestingartækifæri fyrir stóra aðila sem vilja bara græða. Fókusinn er ekki á að byggja heimili fyrir fólk. Ég held það sé rót vandans hvar eignarhaldið liggur, hver á fyrirtækin sem eru að byggja, hver ákveður hvar á að byggja og svo framvegis sem er auðvitað mjög pólitískt. Margir arkitektar telja sig ekki vera pólitíska og blanda sér þess vegna ekki í umræðuna en fyrir mér er það mjög pólitískt að hafa engar skoðanir á þessu!“
Arnar tekur dæmi um þétta byggingarreiti sem hafa risið upp síðustu ár í Reykjavík. „Það er distópískt að það rísi heilt hverfi sem eitt fasteignafélag byggir og ræður öllu í. Það verður alltaf sálarlaust á einhvern hátt, finnst mér. Á móti eru góð dæmi um það þegar stærri samtök skipulögð á lýðræðislegri hátt eins og Verkamannabústaðir byggðu gott hverfi. Mér finnst skipta máli að við séum með fleiri og minni aðila, verktaka og fasteignaþróunarfélög sem eru að byggja og deilum reitunum meira upp. Með því fáum við fjölbreytni. Margrét Harðardóttir arkitekt orðaði þetta vel þegar hún sagði að gamla Reykjavík hafi byggst upp á því að margir voru að byggja sinn eigin draum á lítilli lóð. Ég er mjög sammála því. Umræðan í dag gengur út á að arkitektúr sé orðinn svo leiðinlegur og það sé verið að byggja á leiðinlegan hátt, bara endalausa kassa. Ég er alveg sammála því en ég held að undirliggjandi vandamálið sé stærra.“
En hvað finnst þér vel gert í Reykjavík? „Ég bý í Skipholti og það er mjög góður staður til að vera á. Svo vil ég nefna bæði Laugardalinn og Vesturbæinn sem eru mjög góð hverfi og Árbæinn. Það eru margar byggingar á Íslandi mjög flottar til dæmis Kjarvalsstaðir (teiknaðir af Hannesi Kr. Davíðssyni) og Ráðhúsið (teiknað af Margréti Harðardóttur og Steve Christer).“





Lavaforming á leið til Reykjavíkur
Talið berst að sýningunni Lavaforming, framlagi Íslands á Feneyjatvíæringnum á síðasta ári en Arnar stóð að sýningunni ásamt Arnhildi móður sinni og góðum hópi fólks. Í verkinu sést framtíðarborg, byggð úr hrauni. Arnar segir að með sýningunni hafi þau vilja breyta og eiginlega kollvarpa umræðunni. „Það verkefni er tilraun til þess að hugsa um arkitektúr í dag út frá öðru sjónarhorni en bílastæðum.“
Lavaforming opnaði Feneyjum í maí 2025 og stóð yfir fram í nóvember sl. en samtals seldust yfir 300 þúsund miðar á sýningunni. Verið er að setja Lavaforming upp í Listasafni Reykjavíkur þar sem sýningin opnar í 23. janúar. „Þetta verkefni er auðvitað mjög mikill draumur. Ég útskrifaðist sem arkitekt haustið 2024 og fór beint með sýningu inn á Biennalinn 2025, stærsta vettvang arkitekta fyrir svona sýningar, sem var bara algjör snilld! Við vorum í Feneyjum í mánuð að setja allt upp og það er eiginlega útópísk borg. Engir bílar, bara bátar og allir þekkja alla. Ég hitti og spjallaði við fullt af fólki og arkitekta sem ég hafði bara lesið um á netinu og í blöðum sem var mjög skemmtilegt,“ útskýrir Arnar. Lavarforming-teymið er nú á lokametrunum að setja upp sýninguna í Reykjavík. „Ég er eiginlega spenntari að leyfa Íslendingum að sjá sýninguna. Ég held þeir skilji pælinguna jafnvel betur af því verkefnið er á einhvern hátt búið til fyrir íslenska áhorfendur og fjallar um íslensk málefni.“
Einstakt samband mæðgina
Það er einstakt að fylgjast með samvinnu Arnars og mömmu hans og arkitektsins Arnhildar Pálmadóttur en hún hefur verið áberandi á síðustu árum sem talsmaður betri nýtingar og meiri umhverfisvitundar í byggingargeiranum. Arnhildur hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024, var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2025 ásamt teymi Lavaforming og rekur s.ap arkitekta þar sem bæði Arnar og systir hans Björg vinna. „Þegar ég var 19 ára fattaði ég að ég vildi verða arkitekt, það meikaði svo mikinn sens fyrir mér! Ég held reyndar að ég hefði alltaf orðið arkitekt út af mömmu,“ segir Arnar einlægur. „Við tölum 95% um arkitektúr.. nei nei við erum alveg eðlileg á einhvern hátt líka. En mamma var alltaf að sýna mér og útskýra hvað hún var að gera þegar ég var að alast upp. Ég þekki ekkert annað en vera alltaf að tala um verkefnin mín eða hennar. Hún hefur alltaf tekið vel í mínar hugmyndir, meira að segja þegar ég var lítill að segja eitthvað bull um tölvuleiki eða dót. Hún spurði alltaf til baka sem hefur hjálpað mér að hafa trú á sjálfum mér og mínum hugmyndum. Það eru algjör forréttindi að vinna með henni og alls ekki sjálfsagt fyrir nýútskrifaðan arkitekt að byrja að vinna strax með svona fagmanni!“
Verkefni s.ap arkitekta eru t.a.m. Félagsbústaðir við Háteigsveg sem hlutu tilnefningu sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2025 en einnig tilnefningu til Mies van der Rohe alþjóðlegu arkitektaverðlaunanna sem veitt eru á næsta ári. Eins eru þau að vinna að nýrri byggingu við Frakkastíg 1 þar sem grænar áherslur eru í fyrirrúmi, auk þess að vera að vinna að bók um Lavaforming og að ýmsum rannsóknarverkefnum.
Lavaforming sýningin opnar í Listasafni Reykjavíkur 23. janúar nk. og stendur fram í apríl.


